Ávarp forstjóra og stjórnarformanns
Enn eitt ágætt ár er að baki í starfsemi Origo. Rekstur gekk vel og afkoma félagsins í heild var góð. Þetta á sérstaklega við þegar horft er til þess að aðstæður í rekstri voru talsverð áskorun á síðasta ári, nokkur hægagangur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi sem bæði hægði á og frestaði verkefnum. Tekjur jukust eins og undanfarin ár og námu tæpum 15 mö.kr. Hagnaður var 456 m.kr. sem er eðlilega samdráttur frá um 5,5 milljarða methagnaði árið 2018 eftir sölu á eignarhlut í Tempo, en vel viðunandi í sögulegu samhengi.
Mikilvæg skref voru stigin í eftirfylgni við stefnumótun og enn frekari aðlögun á þjónustu Origo að þörfum viðskiptavina. Þar ber hæst aukið vægi hugbúnaðartengdrar starfsemi, framboð á fjölbreyttum skýja- og öryggislausnum í áskrift, sjálfvirknivæðingu og útvistun. Segja má að þessi þróun sé tímanna tákn og til vitnis um þá auknu áherslu sem atvinnulíf hérlendis og erlendis leggur á stafræna vegferð, þ.e. nýtingu stafrænnar tækni til að laga þjónustu að þörfum viðskiptavina, hagræða í rekstri og auka gæði.
Nýr burðarás í starfsemi Origo
Undir hatti Origo er rekin fjölbreytt starfsemi, allt frá sölu á notendabúnaði og rekstraþjónustu, til sölu og ráðgjafar í tengslum við eigin hugbúnað og hugbúnað frá leiðandi birgjum á heimsvísu. Þegar horft er til þessara starfsþátta er ljóst að rekstrarárangur var nokkuð misskiptur. Með öðrum orðum, þá var stór hluti afkomu Origo borinn uppi af hugbúnaðartengdum verkefnum og þjónustu á meðan afkoma af rekstrarþjónustu og sölu á notendabúnaði var í járnum.
Hugbúnaðartengd starfsemi og uppbygging eigin lausna hefur verið sérstakt áherslumál hjá Origo undanfarin ár og hefur rekstur hugbúnaðareininga styrkst verulega, einkum á síðasta ári. Þessi þáttur telst nú burðarás í okkar starfsemi og er uppbygging á þessu sviði og árangur í beinu samhengi við fjárfestingu, annarsvegar kaup á smærri rekstrareiningum sem styðja við lausnaframboð og hins vegar í innri þróun eigin hugbúnaðarlausna. Í því sambandi má nefna að á síðasta ári fjárfesti Origo sem nemur ríflega 4% af veltu í þróun á eigin lausnum auk þess sem fest voru kaup á hugbúnaðarlausnum sem styðja við þjónustuframboð Origo og eru ætlaðar til frekari þróunar. Lausnaþróun og nýsköpun er mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækja eins og Origo og undirstaða í uppbyggingu atvinnulífs og fjölgun verðmætra starfa á Íslandi. Það er ánægjulegt að finna fyrir stuðningi stjórnvalda við starf af þessu tagi, m.a. í gegnum endurgreiðslu á hluta þróunarkostnaðar.
Hugbúnaðartengd starfsemi og uppbygging eigin lausna hefur verið sérstakt áherslumál hjá Origo undanfarin ár og hefur rekstur hugbúnaðareininga styrkst verulega, einkum á síðasta ári.
Markmið okkar með fjárfestingu í eigin þróun eru margvísleg, allt frá því að bæta þjónustu okkar við viðskiptavini með breiðara lausnaframboði, til þess að gera vinnustaðinn okkar áhugaverðari fyrir starfsfólk, og til þess að treysta og fjölga tekjustoðum. Að sama skapi sjáum við möguleika á að skapa veruleg verðmæti fyrir hluthafa, en eins og saga Tempo sýnir glöggt, þá getur virði hugbúnaðarlausna sem erindi eiga út fyrir landsteinana verið verulegt.
Hagræðing og breyttar áherslur í rekstrarþjónustu
Origo hefur um langt árabil rekið öfluga og umfangsmikla rekstrarþjónustu fyrir fjölda íslenskra fyrirtækja. Þessir viðskiptavinir trúa okkur fyrir fjöreggi sinnar starfsemi, meira og minna allri upplýsingatækni, og við erum mjög stolt af því trausti sem okkur er þannig sýnt.
Afkoma af rekstrarþjónustu og sölu á upplýsingatækniinnviðum hefur verið undir væntingum um nokkurt skeið, sem skýrist að hluta af breyttu neyslumynstri fyrirtækja á upplýsingatækni. Almennur samdráttur hefur verið í kaupum fyrirtækja á miðlægum innviðum undanfarin ár en að sama skapi hefur útvistun orðið algengari valkostur. Þetta er þróun sem hefur verið viðvarandi og mun halda áfram á næstu árum, en samhliða verða til tækifæri með aukinni eftirspurn eftir útvistun og sjálfvirknivæðingu.
Til að nýta slík tækifæri höfum við endurskipulagt lausnaframboð og rekstur Þjónustulausnasviðs Origo. Markmiðið er að koma betur til móts við þarfir viðskiptavina og kröfu um aukið hagræði, einfaldari umsýslu í rekstri tölvukerfa og ráðgjöf við val á lausnum sem henta þeim hverju sinni. Lausnaframboð hefur verið endurmótað með sérstakri áherslu á verkfæri til að auka sjálfvirkni og öryggis- og skýjalausnir af ýmsu tagi. Í öllum rekstri höfum við svo aukið sjálfvirkni í ferlum og náum þannig að fækka starfsfólki í rekstrartengdum verkefnum og hliðra starfsfólki frekar í sérverkefni sem eru meira virði fyrir okkur og viðskiptavini. Þessu til viðbótar, höfum við nýtt okkur tilfærslu einfaldari verkefna út fyrir landsteinana, til svæða þar sem kostnaður er lægri. Við gerum ráð fyrir að afrakstur þessa starfs skili sér á árinu 2020.
Með þessum breytingum eru horfur á sviði rekstrarþjónustu og innviða hjá Origo góðar. Sala á stærri fyrirtækjalausnum og þjónustusamningum hefur heldur tekið við sér á fyrstu mánuðum nýs árs, hagkvæmni í rekstri er meiri og eftirspurn eftir lausnum á sviði öryggis- og skýjalausna og sjálfvirknivæðingu viðskiptaferla aukist verulega. Þjónustulausnir Origo eru í dag vel í stakk búnar til að bregðast við aukinni eftirspurn og veita viðskiptavinum hagkvæma og örugga þjónustu.