Fjárhagur


Seldar vörur og þjónusta

Sala á vöru og þjónustu nam 14.845 m.kr. árið 2019 samanborið við 13.809 m.kr. árið 2018, sem er tekjuvöxtur um 7,5% án tekna Tempo ehf. Tempo ehf. er ekki lengur hluti af samstæðureikningi félagsins, en með tekjum Tempo árið 2018 drógust tekjur ársins saman um 5,5%. Nýjar rekstrareiningar, Strikamerki, Tölvutek, Pax flow og Booking factory hafa jákvæð áhrif á tekjuvöxt seinni hluta árs 2019. Vöxtur var í sölu á notendabúnaði sem og hugbúnaði en tekjur lækka í rekstrarþjónustu og innviðum.

* Seldar vörur og þjónusta er án Tempo ehf.

EBITDA

EBITDA nam 1.006 m.kr. (6,8%) árið 2019, en nam 633 m.kr. árið 2018 ef Tempo ehf. er tekið út úr samstæðureikningi félagsins. EBITDA árið 2018 með Tempo ehf. var  1.128 m.kr. (7,2%) árið 2018. Árið 2019 tóku nýir IFRS reikningsskilastaðlar gildi sem höfðu 316 m.kr. jákvæð áhrif á EBITDA á árinu.

* EBITDA er án Tempo ehf. og með áhrifum IFRS 16 árið 2019

Heildarhagnaður

Heildarhagnaður árið 2019 var 456 m.kr .samanborið við 5.420 m.kr. heildarhagnað árið 2018. Árið 2018 færðust 5 ma.kr. undir fjármunatekjur vegna sölu á 55% eignarhlut í Tempo ehf.

Eiginfjárhlutfall

Eiginfjárhlutfall er 57% árið 2019 en var 66% árið 2018. Eiginfjárhlutfall hefur verið sterkt síðustu tvö ár og í takti við markmið félagsins.

Veltufjárhlutfall

Veltufjárhlutfall er 1,34 árið 2019 en var 1,95 árið 2018. Veltufjárhlutfall er innan þeirra marka sem félagið einsetur sér.

Eigið fé

Eigið fé lækkar um 1.378 m.kr. frá árslokum 2018. Munar þar mestu um lækkun óráðstafaðs eigin fjár vegna arðgreiðslu upp á 1 ma.kr. árið 2019.

NET debt/EBITDA

Net debt/EBITDA er -0,3 árið 2019 en var -2,0 árið 2018. Eftir áætlaða arðgreiðslu upp á 180 m.kr. eftir aðalfund félagsins 6. mars 2020 er gert ráð fyrir að félagið verði komið nær markmiði sínu að Net debt/EBITDA sé á milli 0,5 og 2.

Fjárfestingar

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum voru 333 m.kr. árið 2019 sem er hærra en árið 2018, aðallega vegna endurnýjunar á stórum búnaði í vélasal félagsins. Fjárfesting í óefnislegum eignum lækkar verulega árið 2019 vegna þess að Tempo fer út úr samstæðuupgjöri félagsins árið 2019. Keyptar voru rekstrareiningar eða fyrirtæki fyrir 338 m.kr. á árinu 2019.

Handbært fé frá rekstri

Handbært fé frá rekstri var 629 m.kr. í lok árs 2019 en var 1.217 m.kr. í lok árs 2018. Í lok árs 2018 voru óvenju miklar viðskiptaskuldir auk þess sem rekstrarniðurstaða í Q4 2018 var óvenju góð. Skuldir sem söfnuðust upp í lok árs 2018 voru greiddar niður árið 2019, viðskiptaskuldir lækkuðu um 533 m.kr. á árinu 2019. Birgðir lækkuðu einnig um 389 m.kr. á árinu.