Sjálfvirkni í ferðalausnum skilar hratt ávinningi
Mikil gróska einkennir starfsemi hugbúnaðareininga Origo, meðal annars í tæknilausnum fyrir ferðaþjónustu, en fyrirtækið hefur lagt mikla áherslu á eigin vöruþróun og sérþróun fyrir flugfélög, ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, gististaði, bílaleigur og bókunarskrifstofur. Ein af lausnum Origo fyrir ferðaþjónustu er Bus Travel Guide sem eykur skilvirkni í rekstri og framkvæmd hópferða. Lausnin samanstendur af umsjónarvef og snjallforritum fyrir hópferðabílstjóra og viðskiptavini. Þá má nefna Paxflow, sem er umsjónarkerfi fyrir ferðaskipuleggjendur, sem er ætlað að efla skilvirkni í rekstri með aukinni sjálfvirkni og tryggja betri upplifun viðskiptavina.
Origo kynnti Cover hótelbókunarkerfið til sögunnar fyrir ári síðan og viðbrögðin hafa verið afar jákvæð. Með Cover er hægt að sjálfvirknivæða hótelin, sem hafa mörg eytt miklum tíma og mannafla í ýmsa handavinnu. Ávinningurinn af Cover kerfinu er mjög sýnilegur og sérstaklega í tekjustýringu, sem er mjög mikilvægur fyrir hótel. Tenging við lausnina tekur skamman tíma og ávinningur af sjálfvirkni skilar sér nokkuð hratt. Lausnin reiknar út verð sjö sinnum á sólarhring og tekur til hliðsjónar verð samkeppnisaðila, eftirspurn, nýtingu viðkomandi hótels og áætlanir um meðalverð.
Mest notaða bílaleigukerfið
Enn önnur ferðalausn frá Origo er Caren, sem er heildarlausn fyrir bílaleigur af öllum stærðum. Með Caren lausninni geta bílaleigur hámarkað flotanýtingu og haft umsjón með heildarferli í rekstri sínum. Með Caren lausninni getur bílaleiga vaktað flotann í rauntíma og fengið skýrslur um akstur og notkun einstakra bifreiða. Caren er mest notaða bílaleigukerfið á Íslandi í dag. Lausnin er einnig í notkun hjá bílaleigum í Evrópu og í Suður-Afríku.
Origo hefur einnig fjárfest í tæknilausnum fyrir ferðaþjónustu sem falla vel að starfsemi Origo. Breska hótelstjórnunarkerfið The Booking Factory (TBF) er dæmi um slíkt en það er heildarlausn fyrir smærri til meðalstóra gististaði. TBF er einföld og nútímaleg skýjalausn sem er í notkun hjá um 250 hótelum og gististöðum í 11 löndum. Lausnin er markaðssett undir eigin nafni erlendis og sem „white label“ lausn á Íslandi undir vörumerkinu Cover.is. The Booking Factory er góð viðbót við lausnaframboð Origo og áherslur á þróun eigin lausna fyrir markaði innanlands og utan.