Umhverfismál
Origo hefur sett sér umhverfisstefnu sem tekur til allrar starfsemi Origo auk allra starfsmanna fyrirtækisins. Starfsmenn og stjórnendur Origo skulu kynna sér efni stefnunnar og framfylgja henni, auk þess að leita leiða til umbóta í umhverfismálum. Framfylgja skal öllum lagakröfum á sviði umhverfismála í starfsemi félagsins. Með umhverfisstefnunni skuldbindur félagið sig til að vinna markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar.
Origo hefur sett af stað vinnu við endurskoðun á umhverfisstefnu fyrirtækisins og er ætlunin að endurskoðuð umhverfisstefna komi fram á árinu 2020 sem verður með skýrari magnbundnum markmiðum til lengri tíma.
Origo er eitt af þeim fyrirtækjum sem er aðili að Loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu frá árinu 2015 og hefur félagið þannig skuldbundið sig til að vinna að aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúslofttegunda og minnka myndun úrgangs. Félagið notar hugbúnað til að mæla vistspor fyrirtækisins og setja markmið í umhverfismálum fyrir fyrirtækið. Origo hvetur starfsmenn til vistvænna ferðmáta, m.a. með því að veita þeim samgöngustyrki sem stunda vistvænar samgöngur og hefur félagið sett sér sérstaka samgöngustefnu í þessum efnum. Allt sorp sem fellur til, bæði á skrifstofu félagsins, verslun, verkstæði og lager, er flokkað í viðeigandi flokkunartunnur. Félagið hefur tekið stór skref í útrýmingu einnota umbúða sem voru áður í tíðri notkun. Félagið notar eigin lausn, RentaPrent, þar sem lögð er áhersla á að draga úr sóun á pappír.
Origo hf. framkvæmir nú í fyrsta skipti heildstætt umhverfisuppgjör í samstarfi við Klappir Grænar Lausnir fyrir árið 2019. Umhverfisuppgjörið er unnið í samræmi við Greenhouse Gas Protocol (GHG Protocol) og ESG leiðbeiningar NASDAQ og hefur Origo kolefnisjafnað rekstur sinn fyrir árið 2019 með samstarfi við Kolvið (Iceland Carbon Fund).
Kolviður mun binda kolefni í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt á móti þeirri kolefnislosun sem á sér stað í rekstri Origo á árinu 2019. Um er að ræða losun m.a. vegna bifreiða í rekstri félagsins, húsnæðis, sorps og flugsamgangna.
Umhverfisuppgjör Origo hf. 2019